Jah ég skal segja ykkur það...

Sæl öll

Langt síðan síðast.... ég sit hérna á litlu skrifstofunni og er að reyna að gera eitthvað að viti, en gengur ekkert. Enn og aftur er skrýtið að vera hérna með enga gesti og enn skrýtnara að hafa ekkert planað. Það er einhvernvegin þannig að allar helgar hafa verið þaul skipulagðar og mikið stuð. Siffa sys var einmitt hérna um síðustu helgi og var það alveg meiriháttar. Fórum í siglingu á föstudeginum, en unga kynslóðin hafði beðið lengi eftir henni. Eftir c.a. 15/60 mín siglingu kom spurningin ,,er þetta ekki að verða búið". Þetta var samt fín sigling og fullt af hlutum sem gaman var að sjá.  Sem dæmi má nefna glæsiíbúðirnar sem við sigldum framhjá, svei mér þá ef það voru ekki bara eitthvað ,,son" á bjöllunum...veit ekki... Á laugardaginn var svo eitthvað búðarvesen og síðan var endað í Tivolí og var það hrikalega flott að kvöldlagi. Helling af graskerum og ljósum hrikaleg stemmning og bíðum við spennt eftir að jólatívolíið opni. Brjálað að gera í skólanum núna allt að verða kreisí. Kólumbus litli og Bribba eru búin að vera í vetrarfríi alla vikuna og hafa verið mér til nokkurs ama. Það lagast allt eftir helgi þegar þau fara að mæta í skólana á ný. Von er á fullt af gestum á næstunni og held ég að ég þurfi að opna excel skjalið mitt ef ég á að fræða ykkur eitthvað um það, það kemur síðar. 

Ég gerði þau mistök enn einn daginn í morgun að fara að glugga í íslensku blöðin. Það boðar ekkert nema þunglyndi. Ég tók svo góða gítarslökun í morgun og æfði partý lög helgarinnar. Þema helgarinnar er ,,Ísland í dag" nokkur dæmi af efnisskránni eru: Maístjarnan, Ísland er land þitt, Ræningjavísur, Austurstræti, Konan sem kyndir ofninn minn, Furðuverk, Bankastjórablús og fleiri lög í svipuðum dúr. Flest lögin spiluð í hægu tempói og með tregafullum söng. Nóg um það! Byrja aftur í boltanum á mánudaginn grííííðarlega spenntur. 

p.s. Er búinn að setja inn slatta af myndum í október albúmið, kreppuklipping er málið! 

 

MVH

Pjé 

 


hrímkaldur raunveruleikinn....

Hej

Veit ekki alveg hvað maður á að segja á svona dögum, kannski er bara best að segja sem minnst. Getur maður nokkuð annað gert en að halda sínu striki, horfa fram á við og vona. Það er að minnsta kosti það sem ég ætla að gera. Það er vitað að þetta verður erfitt það veit bara enginn hversu erfitt! Ég er búinn að vera á fullu í verkefnavinnu í skólanum og skilaði þeim af mér í nótt. Mjög gott að vera búinn að því. Helgin var frábær bjórbolti á laugardaginn sem var mjög skemmtilegur og endaði svo í allsherjar gleðskap hér í götunni. Egill er tvímælalaust maður helgarinnar og fór á kostum hér á laugardaginn. Að tillitsemi við aðstandendur Egils verður ekki farið nánar út í þetta, en myndbandið af honum er til sölu hæstbjóðanda(danskar krónur, takk). Egill og Rakel gistu hjá okkur á laugardagskvöldið og voru hjá okkur fram á sunnudagskvöld. Við horfðum á Liverpool vinna erfiðan baráttu sigur á City sem var yndislegt....ha Palli!!! Siffa sys kemur á fimmtudaginn til þess að sækja peningana frá Nordea bank fyrir Geira Cash. Hún verður fram á sunnudag og verður það ábyggilega mikið fjör. Halloween Tívolíið opnar á laugardaginn og mætum við auðvita þangað. Öddi er einnig væntanlegur á svæðið á föstudag og munum við gera allt sem við getum til þess að hitta kappann í gír. Vonum svo að gengið verði þokkalegt við okkur áfram og peningarnir okkar fari að skila sér í gegnum kerfið. Við erum búin að vera auralaus of lengi. Alltaf stoppað og allt staur helvítis hægagangur í þessu gjaldeyriskerfi. 

 

hilsen,

 

Pjé 


Fótbolti, fönn og fleira....

Sæl öll

Alltaf föstudagur alltaf fjör. Vá hvað tíminn flýgur frá manni þetta er ógnvænlegur hraði. Allt gott að frétta hér hjá okkur og veðrið fínt ennþá utan kulda kvölds og morgna. Egill kom til okkar seinnipartinn í gær og kíktum við upp á fótboltavöll. Það var síðasti leikurinn á þessu tímabili og mikið fjör. Við reyndar töpuðum, en það leit ekki út fyrir það framan af. En mótherjarnir kláruðu leikinn sannfærandi enda efsta liðið í deildinni. Á morgun er svo allra síðasta útiæfingin og verður það Bjórbolti. Skilst að það sé mikið fjör stefnan er sett á að spila Liverpool á móti Man U. en ég efast um að Man U. nái í lið enda flestir hér með á nótunum. Annars er það yngri á móti eldri og held ég þrátt fyrir háan aldur að ég sé með þeim yngstu, fyrir utan Stebba auðvita hann náttúrulega bara barn.  Nóg um það! Efnahagsmál ne held ekki, maður er frekar tjillaður með krónuna í 21,5 spurning um að fara að sjoppa um helgina. Skilst að það sé aðalmálið í dag að leggja undir hvað krónan fellur mikið á daginn. Pókerinn að deyja út. Blöff!

Langar að enda þetta á því að óska Reykvíkingum til hamingju með frostið og snjóinn. Klukkan er 10:43 hjá mér og það er 12° hiti og létt yfir.

p.s. Morten sló í gær, það var mikið, ég hélt að hann ætlaði aldrei að gera þetta. Leiðinlegt þegar fólk er að draga þetta svona.  

 

p.s.2 Mamma takk fyrir að koma með gítarinn, ég er hamingjusamurmjög.

 

 

mvh

Pjé 


Undir áhrifum NASA

Hej

Kominn þriðjudagur og skólinn byrjaður að fullum krafti á ný. Var að byrja í tveimur nýjum fögum í gær og verður spennandi að takast á við þau. Helgin var frábær og var allgjör snilld að hafa mömmu og pabba hjá okkur. Við eyddum laugardeginum í miðbænum og gerðum ýmislegt skemmtilegt. Ég og pabbi fórum á knæpu og horfðum á Liverpool slátra Neverton, það var ljúft. Á meðan töltu tjellingarnar og Kristófer milli búða eins gaman og það getur nú verið. Eftir leik kíktum ég, Pabbi, Stebbi og Kristófer á Hviids Vinstuen og drukkum í okkar sögu staðarins. Sumir í hópnum töldu að þeir fyndu fyrir nærveru Jónasar og fleiri höfðingja. Á meðan við drukkum í okkur sögulegar staðreyndir stúderuðu tjellurnar sögu verslunar ved Kaupmannsgade. Hóparnir báru síðar saman bækur sínar á Nýhöfn þar sem lífið verður ekkert mikið ljúfara. Í ölæði ákváðum við síðan að taka hjóla-taxa á veitingastaðinn þar sem við höfðum ákveðið að snæða og var það geggjað. Greyið maðurinn sem hjólaði með okkur. Mamma og pabbi voru í einum vagni og ég, Birgitta og Kristófer í öðrum. Vá hvað við vorkenndum manninum að hjóla með okkur. Þið getið séð myndir af hjólaferðinni í "September" albúminu. Bæjarferðinni var síðan sluttað með glæsilegum kvöldverði á uppáhalds ítalska staðnum okkar. Frábær dagur og frábær helgi. 

DK krónan er alveg að detta í 20 kallinn og bíðum við Bjarni í ofvæni eftir að það gerist. Þá ætlum við að fara í bæinn og sjá hvað við getum drukkið marga áður en að við hættum að geta reiknað verðið í ISK. Hugsa að ég segi lítið meira um þessi efnahagsmál þar sem þetta er graf alvarlegt mál. Svo veit maður aldrei hvort það séu einhverjir ríkisstarfsmenn sem maður þekkir sem lesa þetta. Veit það ekki, Stebbi?

Hendi hérna inn nýja logo-inu og slogo-inu hjá nýjasta ríkisfyrirtækinu. Fékk þetta sent frá Dabba í gær!

 over and out 

hilsen,

Pjé 

 Picture 15


Fjórtán tvö....

Hæ þú!

Vil byrja á því að afsaka bloggleysi, en próflestur hefur étið allar mínar stundir undanfarið. Er að fara í lokapróf í yfirstandandi áfanga á morgun. Síðasta helgi var frábær, mikill gestagangur og mikið stuð hér hjá okkur. Berglind og Óskar voru hér um helgina og svo var auðvita svaka matarboð á laugardaginn. Sumir voru nú hálf glærir og slappir á laugardaginn og voru menn ekkert að komast í gang fyrr en undir miðnætti því tekið var allsvakalega á því þegar Óskar kom á föstudagskvöldinu. Góð helgi var svo innsigluð þegar við Stebbi fórum með Óskari niður í Ný höfn á sunnudag í slökun og kaldann á leiðinni út á flugvöll. Komandi helgi verður væntanlega ekki síðri  því mamma er að koma í kvöld og síðan kemur Þíódore á morgun. Mamma er þessa stundina að glíma þessa við að pakka í töskuna sína því óskalistinn hjá litlu fjölskyldunni hér var ansi langur. Spenntastur er ég þó fyrir að fá kassagítarinn minn sem var efstur á blaði, en sá sem ég tók með í sumar lenti í smá hnjaski og er ónýtur. Það er margt meira spennandi á listanum sem heimilisfólk bíður eftir og er ég að spá í að birta listann hér til hliðar einhversstaðar ef ég kann það svo fólk geti gripið með sér eitthvað af honum þegar það kemur hingað. Gengið heldur áfram að gera góða hluti og hefur það aldrei verið hærra. Ég og Bjarni erum að bíða eftir því að dkrónan nái 20 og haldist þar, jú þá er svo auðvelt að reikna...ha! Ekkert hefur frést af gluggagægi og er ég viss um að við höfum náð að fæla hann burt um síðustu helgi. Hann rétt ræður ef hann kemur hingað!

p.s. Kjarri: Ég var með sláttuvélina svo hátt stillta að það slóst ekkert rosalega vel. Þetta er orðið frekar loðið aftur. Þíódore byrjar ábyggilega að tala um þetta þegar hann kemur á morgun. Verst að röðin er ekki komin að mér! 

 

M.V.H 

Pjé Excel 


Sá hlær best sem síðast slær...

Góðan dag þú

 Föstudagur mættur í hús og taumlaus gleði framundan. Slætti á mið-Sjálandi lokið og allt að verða tilbúið fyrir standandi garden party komandi helgar. Jú það er rétt ég gaf eftir, ég sló grasið enda sat nágranni minn fyrir mér þegar ég koma af fótboltaæfingu í gær og fór yfir málið með mér. Það var reyndar komið ansi mikið myrkur þegar ég sló og var ansi strembið átta sig á hvað var búið að slá og hvað ekki, en jú jú þetta virðist þola dagsbirtuna bara ágætlega.

Ég sit hérna einn á litlu skrifstofunni minni með massa hroll í mér. Ástæðan er sú að ég var að fá mail frá umsjónarmanni hér í götunni þar sem varað er við gluggagægi. Hann er búinn að koma á nokkra glugga hér í götunni og er þetta frekar óhugnanlegt. Hann hreyfir við gluggunum og skilur eftir sig merki um að hann hafi verið þar þ.e. stimpil eða handaför. Okkur er bent sérstaklega á að ef hann kemur að reyna ekki að ná honum sjálf heldur hringja í lögguna og reyna að ná myndum af honum í gegnum gluggann. Ég var að tala við Bjarna og ræða þetta við hann við erum að spá í að fara og kaupa okkur base ball kylfur í dag. brrrr... 

Nóg um það gott fólk og góða helgi

p.s. munið eftir gluggagægjunum 

hilsen

Pjé the gardener  

 


Pant ekki slá....

Dag

 

Nú er farið að verða ansi kalt hjá okkur hér. Gærdagurinn var kaldur og held ég að dagurinn í dag sé enn kaldari. Þó er það svo skrýtið að það er eins og það taki meiri tíma hér að ná dags hitanum. Þið þekkið það á Íslandi hvernig það getur verið skítkalt á morgnana, en síðan um tíu leytið er orðið hlýrra. Hér virðist eins og þetta komi upp úr hádegi. Í gær var ekki kominn þokkalegur lofthiti fyrr en milli eitt og tvö sem mér finnst ansi seint í rassinn gripið. Ég fór á fótboltaæfingu í gær og þá var bara bongo blíða. Þetta er rosalegt, er´uði spennt? Fór til Bjarna í gærkvöldi að horfa á mína menn sækja þrjú ja svona nokkuð verðskulduð stig til Miðjarðarhafsstranda (var að kaupa mér hnött). Tveir sjö grænir og skítkalt á leiðinni heim, málið dautt. Ég er núna að passa Pétur Áka þar sem Stebbi er í skólanum og Auður upp á spítala að skoða aðstæður. Hann er sofandi út í vagni núna og ég vona að hann sofi bara þangað til Auður kemur aftur. Mér finnst betra að tala og leika við börn þegar þau eru bara ready. Ég kann ekkert að vekja eða taka á móti börnum úr svefni, hvað þá að skeina, skipta eða baða. Ég vil bara getað spjallað við þau og kenna þeim að gera eitthvað sem þau mega ekki gera. Hugsa samt að ég verði nú að fara breyta því hugarfari fyrr en síðar, en ekki í dag.

Svaka plan framundan, Óskar skólabróðir okkar Stebba sem er fluttur til London ætlar að kíkja yfir um helgina. Fyrir ykkur á stór-Kaupmannahafnarsvæðinu sem ekki kannist við okkur strákana saman verið þið bara heima við um helgina. Á laugardag er fyrirhugað matarboð hér hjá okkur og verður það ábyggilega fjör. Helga og Bjarni, Stefán og Auður, Berglind skólasystir Birgittu og auðvita Óskar hafa öll boðað komu sína.  

 Pabbi, iss get ekki slegið í dag er að passa, má ekki vekja Pétur! 

 

Messa pass 

 

Pjé 


Spurning um að slá´ann bar með horse tailinu...

Hæ hó

Mánudagur og kannski jafnvel svartur mánudagur! Fjármálaheimurinn endanlega að fara til fjandans og ekkert virðist ganga að rétta hann við. Nú hljóta að vera ansi margir á leiðinni í heimsókn til okkar hingað í Danaveldi enda fýsilegt að kíkja í verslunarferð með d.krónuna í 17,5...finnst ykkur ekki. Þekki reyndar nokkra H&M fíkla sem láta þetta ekkert á sig fá því H&M virðist alltaf borga sig sama hvernig krónan stendur. ha mæðgur...úps.

Yfir í léttara hjal, Þíódore kom í stutt stopp til okkar á laugardaginn. Það var mikið fjör og mikið gaman að fá þann gamla enda höfðum við ekki hitt hann í einn og hálfan mánuð. Við fengum sendingu frá mömmu með íslensku nammi og sósupökkum. Saknaði reyndar Egils appelsín og íslensku vatni sem ég var búinn að panta, það kemur næst trúi ég. Við tókum því rólega á laugardaginn og sátum út í garði og sleiktum sólina með grænan í hönd. Við tókum okkur síðan pásu frá sólinni og horfðum á okkar menn leggja Manjú mjög svo sannfærandi. Loksins loksins spiluðu mínir menn sannfærandi bolta og uppskáru glæsilegan sigur. Eftir leik tók svo garðurinn við og fleiri grænir. Kíktum um kvöldið upp í Herlev á Avanti sem er fínn ítalskur staður. Eftir góða máltíð lá leiðin í garðinn þar sem setið var fram eftir kvöldi í úlpum með teppi og kertatýrur.  Yndislegt ekta íslenskt útikvöld í Danmörku. Þíódore kom ansi sterkur inn í hjólamenninguna hér og má segja að maðurinn hafi verið hjólasjúkur og máttum við í yngri deildinni hafa okkur öll við að fylgja honum eftir. Sunnudagurinn fór í slökun og sólbað í garðinum ásamt nokkurra hjólatúra á eftir Þíódore.  

Þegar allt kemur til alls þá er allt að fara fjandans til þó svo að ég finni lítið fyrir því hér á litlu skrifstofunni minni og það eina sem Morten danski nágranni minn hugsar um er að röðin sé komin að mér að slá garðinn. Spurning að hugsa um það sem skiptir máli. Sláttuvélin var komin fyrir utan hurðina hjá mér í morgun og um hádegi var hún komin við þvottasnúruna í bakgarðinum hjá mér eins og þið getið séð ásamt fleiri nýjum myndum í september albúminu. Í dag er ég á fullu að gera verkefni sem ég á að skila fljótlega og hef engan tíma til þess að slá. Eins og þeir sem þekkja mína persónu eitthvað þá ættuð þið að vita að þessi aðferð hjá honum Morten er ekki að hjálpa til. Birgitta vill að ég fari út að slá, en það er nú svo margt sem hún vill að það er ekki nokkur leið að sinna því öllu. Allavega ekki í einu!

Smá skemmtileg saga hér í lokin. Þegar við fórum að út að borða á laugardagskvöldið þá vorum við að spjalla við útigangsmann upp í Herlev. Þegar við vorum að fara spurði hann hvaðan við værum, eftir að hafa reynt að telja honum trú að við værum frá Svíþjóð viðurkenndum við uppruna okkar. Þá sagðist hann sjá það á Birgittu. Við spurðum manninn furðulostin hvernig hann gæti séð það á henni. Hann svaraði að hún væri með "horse tail" eins og íslenski hesturinn. Birgitta var einmitt með hárið í tagl. Toppiði þetta! Eili & Ralli spurning um nýtt viðurnefni á Brybbu. 

 

See you there

Pjé 


Danski kúrinn....

Sælar

Fjör fjör og aftur fjör! Kristófer er kom í gær heim úr skólaferðalaginu. Hann var mjög kátur með það og var mikið fjör hjá þeim í sveitinni. Birgitta meikaði ekki að vera ein eftir með mér meðan Kristófer fór í ferðalagið og fór í tjellingaferð á kaffihús og bíó á mánudaginn með fleiri tjellum héðan úr götunni. Annars er mikið í gangi hér og mikið skemmtilegt framundan. Á morgun erum við að fara á skemmtun frá 17 - 21 í heilsdagsskólanum hjá Kristófer. Þar verður grillað og leikið sér í allskyns tækjum og auðvita verður léttvín og bjór fáanlegt á vægu verði, en ekki hvað. Á laugardagsmorguninn er svo von á Þíódore, en hann er á fundi í Svíþjóð á föstudag og ætlar að kíkja við hjá okkur eina nótt. Það verður nú síður en svo leiðinlegt. 

Ég var að koma af fótbolta æfingu sjitturinn hvað það er gaman. Mikil spenna er að byggjast upp hjá strákunum í boltanum fyrir Klakanum sem er um helgina.  Klakinn er knattspyrnumót íslenskra karlmanna búsettum á Norðurlöndum eins og stendur í lögum mótsins. Þetta er víst mikið fjör og er nokkuð ljóst að ég mæti næsta ár fyrst ég kemst ekki nú. 

 p.s. þakka öllum þeim fjölmörgu sem eru svona duglegir að kommenta! 

p.s.2 held að Kristófer  sé orðinn mikið betri í dönsku heldur en hann sýnir okkur. Bíðum spennt eftir opinberun á því svo hann geti farið að kenna okkurSmile 

Med venlig hilsen

Pjé 



Allt í gangi ekkert blogg....

Góðan daginn! 

Jæja þá er komin góð vika síðan ég bloggaði síðast og biðst ég afsökunar á því. Það er bara búið að vera nóg að snúast síðustu viku ásamt því hef ég verið að berjast við smá slappleika.

Á föstudaginn fór Kristófer í pössun til Eila og Ralla á meðan við Birgitta kíktum á smá rall niður í bæ.  Við kíktum á nokkra vel valda skemmtistaði niður á Striki og var það mjög fínt. Við fórum með Helgu og Bjarna og Evu vinkonu Helgu sem var í heimsókn hjá þeim. Eftir rallið fórum við til Eila og Ralla og sváfum þar. Á laugardaginn fórum við svo í lestinni heim og kíktum í nokkrar búðir. Vei! Í gær fórum við svo í Storcenter og kíktum í fleiri búðir því við vorum að leita að vindbuxum fyrir Kristófer til að taka með í ferðalagið....úff! Kristófer var mættur upp í Lyngby-station eldsnemma í morgun til þess að fara í ferðalagið með skólanum. Hann kemur ekki heim fyrr en á miðvikudag þannig að við erum bara tvö í kotinu þessa dagana.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að sjá hvar Kristófer er þá getið þið fylgt eftirfarandi leiðbeiningum. Einnig getið þið slegið inn heimilisfangið okkar og skoðað hversu langt er á milli punktana. Þá er líka hægt að sjá hvar við erum fyrir þá sem það ekki vita. 

Slóðin á síðuna er: http://www.findvej.dk/

Efst í hægra horninu sláið þið inn eftirfarandi upplýsingar:

Ferðalagið: 

Adresse: Korshage Fjordvej 28

Postnr. / By: 4581

 Heimilisfangið okkar:

Adresse: Kagså Kollegie 256

Postnr. / By: 2730

Efst í hægra horninu er hægt að velja hvort þetta er skoðað á korti eða í gegnum gervihnött.

Vinstra megin á kortinu er hægt að súmma inn og út sem er svaka fjör. Have fun!

 Fer svo að setja einhverjar myndir inn í september albúm ef stuð leyfir.

 

Pámmi 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Pálmi Ólafur Theódórsson

Höfundur

Pálmi Ólafur Theódórsson
Pálmi Ólafur Theódórsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Titanic hvað..
  • Bátsmaður...
  • hugsa sér þeir sett heilt þjóðfélag á hausinn...
  • Mama Rosa
  • gaman í búðum...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband